Að loknum fyrsta leikhluta 

„Fyrir ríkisstjórn sem vill stuðla að sem mestum jákvæðum efnahagslegum áhrifum eru mörg tækifæri á sjóndeildarhringnum. Sala á fleiri ríkisfyrirtækjum, afnám sérréttinda opinberra starfsmanna, umbætur á skólakerfinu, niðurlagning óþarfra verkefna, sameiningar stofnana og mælanlegar hagræðingarkröfur eru dæmi um slík mál.“

Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur á málefnasviði Viðskiptaráðs.

Í kjölfar kosninga til Alþingis er fyrsti prófsteinn hverrar nýrrar ríkisstjórnar hennar fyrsta þing. Metnaður ráðherra til að sýna mátt sinn og megin og tefla fram málum til þess að fylgja eftir kosningaloforðum sinna flokka er almennt áberandi og var þetta fyrsta þing nýrrar ríkisstjórnar engin undantekning þar á.  

Á vorþingi lagði ríkisstjórnin fram 96 lagafrumvörp og þingsályktunartillögur. Af þeim náðu 43 mál fram að ganga á Alþingi, eða tæpur helmingur. Árangur er þó ekki mældur í fjölda mála, heldur öðru fremur hvaða áhrif mál hafa sem samþykkt eru af þinginu.  

Mál fjármálaráðherra skiluðu mestum ávinningi 

Af þeim þingmálum sem samþykkt voru höfðu 17 mál markverð efnahagsleg áhrif, ýmist jákvæð eða neikvæð. Heildaráhrifin voru nokkuð jákvæð en þó misjöfn eftir ráðherrum. Þingmál Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, skiluðu jákvæðustum áhrifum.  

Alls höfðu 12 þingmál markverð jákvæð áhrif. Þar vó sala ríkisins á eftirstandandi eignarhlut í Íslandsbanka þyngst. Jákvæð áhrif sölunnar eru mikil þegar kemur að lækkun skulda, minni áhættutöku og heilbrigðari samkeppni á bankamarkaði. Önnur mál sem höfðu jákvæð efnahagsleg áhrif voru t.d. fækkun ráðuneyta um eitt og skuldauppgjör gamla Íbúðalánasjóðs, sem styrkir einnig efnahag ríkissjóðs.  

Veiðigjöld neikvæðust  

Alls höfðu fimm mál markverð neikvæð áhrif. Þar vógu þyngst lög um veiðigjald, sem fela í sér veigamikla skattahækkun á fyrirtæki í sjávarútvegi. Önnur mál með neikvæð efnahagsleg áhrif voru t.d. lög um nýja ríkisrekna óperu, en þau fela í sér varanlega aukningu útgjalda sem munu vaxa áfram á komandi árum. Þá voru áhrif af fjármálaáætlun og fjármálastefnu metin neikvæð vegna skorts á nægjanlegu aðhaldi og útfærðum hagræðingartillögum. 

Afdrifarík mál náðu ekki fram að ganga  

Fjölmörg þingmál hlutu ekki afgreiðslu og eru því aftur komin á byrjunarreit á borði viðkomandi ráðherra. Gera má ráð fyrir að meginþorri þeirra verði lagður fram að nýju á komandi haustþingi, en málin voru sum hver umdeild. 

Á lista yfir jákvæð mál sem ekki hlutu afgreiðslu eru til dæmis mál sem snúa að aukinni orkuöflun, einföldun leyfisveitinga vegna virkjana og viðskipta með raforku sem og einföldun á regluverki sem snýr að viðurkenningu menntunar.   

Neikvæð mál sem ekki hlutu afgreiðslu eru til dæmis frumvarp um bindingu örorkulífeyris við launavísitölu, íþyngjandi kvaðir um tengda aðila í sjávarútvegi og almenn skráningarskylda húsaleigusamninga og frekari takmarkanir á breytingum leiguverðs. Þessi þingmál myndu vinna gegn aukinni hagsæld, eins og Viðskiptaráð hefur rakið í umsögnum sínum um þau til Alþingis. 

Mörg tækifæri á sjóndeildarhringnum 

Fyrir ríkisstjórn sem vill stuðla að sem mestum jákvæðum efnahagslegum áhrifum eru mörg tækifæri á sjóndeildarhringnum. Sala á fleiri ríkisfyrirtækjum, afnám sérréttinda opinberra starfsmanna, umbætur á skólakerfinu, niðurlagning óþarfra verkefna, sameiningar stofnana og mælanlegar hagræðingarkröfur eru dæmi um slík mál. 

Ljóst er að bæði fyrirtæki og einstaklingar eiga mikið undir því að ríkisstjórnin setji mál með jákvæðum efnahagslegum áhrifum í öndvegi á komandi þingvetri og stuðli þannig að öflugu atvinnulífi og bættum lífskjörum. Ráðherrar eru því hvattir til dáða í því að leggja aftur fram þau þingmál sem hefðu efnahagslega jákvæð áhrif, og sömuleiðis að taka önnur mál til endurskoðunar.

Höfundur er lögfræðingur á málefnasviði Viðskiptaráðs 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 14. ágúst 2025. 

Tengt efni

Hvernig stóð ríkisstjórnin sig á vorþingi?

Viðskiptaráð hefur gert úttekt á efnahagslegum áhrifum þingmála ...

Lummuleg á­form heil­brigðis­ráð­herra

„Sé markmið heilbrigðisráðherra að draga úr neyslu á nikótínvörum ætti hann að ...

Alvarlegar athugasemdir gerðar við misræmi í skólakerfinu 

Viðskiptaráð hefur sent mennta- og barnamálaráðherra og umboðsmanni Alþingis ...