Niðurgreiddir sumarbústaðir?

Í vikunni kynnti félags- og barnamálaráðherra breytingar á reglugerð sem gerir aðilum á landsvæðum þar sem lítið er byggt og húsnæðisverð er lágt, kleift að fjármagna nýbyggingar á hagstæðum kjörum frá Íbúðalánasjóði. Ein helsta ástæðan fyrir þessum breytingum, að sögn ráðherra, er að mjög lítið hafi verið byggt á mörgum stöðum um árabil „þrátt fyrir að eftirspurnin sé mikil“. Í þessu samhengi er forvitnilegt að skoða hvernig íbúafjöldi og fjöldi íbúða hefur þróast síðastliðin ár – en á fasteignamarkaði er íbúaþróun ráðandi og lykilþáttur eftirspurnar. Hvernig hún spilar með tekjum, vöxtum og hvernig íbúðum fjölgar ræður að miklu leyti verðinu.

Á Suðurlandi, Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu hefur íbúum 20 ára og eldri fjölgað hratt síðustu áratugi – enda tilfinnanlegur skortur á húsnæði á þessum svæðum sem leitt hefur til verðhækkana ásamt talsverðri uppbyggingu. Á öllum öðrum svæðum hefur fækkun íbúa aftur á móti orðið á hverja íbúð sl. tvo áratugi, fyrir utan Austurland þar sem hlutfallið hefur staðið í stað. Markaðurinn virðist því virka ágætlega og skilaboðin eru skýr: Það borgar sig ekki að byggja allsstaðar.

Að auki eru samgöngur, atvinna og þjónusta ráðandi þættir í húsnæðiseftirspurn og því engan veginn tryggt að íbúum fjölgi þó svo framboð íbúabygginga aukist. Aukið framboð gæti í reynd rýrt virði fasteigna þeirra sem nú þegar eiga verðlitlar eignir á þeim stöðum sem aðgerðirnar miða að.

Önnur sviðsmynd er að fólk sjái tækifæri í auknu íbúðaframboði á þessum stöðum og nýti sem sumarbústaði, en það getur varla verið ætlun ráðherra að rýra virði fasteignaeigenda í dreifðum byggðum og niðurgreiða sumarbústaði.

Nauðsynlegt er að styðja við byggð í kringum landið. Það gerist þó ekki með því að bregðast við afleiðingum en ekki orsök með liðsinni stofnunar sem hefur kostað landsmenn hundruð milljarða króna.

Ásta S.Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Endahnúti Viðskiptablaðsins þann 29. ágúst, 2019

Tengt efni

Viðskiptaráð kvartar til ESA vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar á húsnæðismarkaði

Viðskiptaráð hefur óskað eftir að ESA hefji rannsókn á því hvort þríþætt meðgjöf ...

Steypt í skakkt mót: áhrif húsnæðisstefnu stjórnvalda 

Stjórnvöld áforma að 45% nýrra íbúða í Reykjavík fari í niðurgreidd ...

Leggja ætti niður Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og endurhugsa kerfið í heild

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð ...